18.1.2010 | 11:08
Ráðningar
Arna Pálsdóttir skrifar:
Í kjölfar kosninga á síðasta ári urðu breytingar inn á elstu og æðstu stofnun okkar Íslendinga. Í því ástandi og atvinnuleysi sem ríkti í þjóðfélaginu þá og ríkir ennþá velti ég því oft fyrir mér hvað varð um það misgóða fólk sem ekki gafst kostur á að setjast aftur á þing eftir kosningar. Tuttugu og sjö einstaklingar settust nýjir inn á þingið sem gerði það að verkum að aðrir tuttugu og sjö annað hvort ákváðu sjálfviljugir að gefa ekki kost á sér aftur til áframhaldandi þingsetu eða náðu ekki kjöri. Má segja að þeim sem náðu ekki kjöri hafi verið sagt upp?
Í dag 18.janúar 2010 eru 16.523 einstaklingar skráðir atvinnulausir. Eru einhverjir fyrrverandi þingmenn á atvinnuleysisskrá eða koma til með að verða?
Eru þeir fyrrverandi þingmenn sem í sumum tilfellum var sagt upp eftir síðustu kosningar á meðal þessara þúsunda sem eru atvinnulausir og munu þiggja atvinnuleysisbætur eða bíða þeirra störf sem ekki eru auglýst og tryggja þeim áframhaldandi laun í líkingu við biðlaun þingmanna?
Það síðarnefnda ætla ég að gefa mér að hafi átt við í tilfelli fyrrverandi þingmanns og ráðherra, Valgerðar Sverrisdóttur, sem að vísu sjálfviljug ákvað að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi þingsetu en fékk á síðasta ári formannsstöðu í nýju ráði um þróunarsamvinnu. Frétt um ráðningu Ástu Möller sem forstöðumanns Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands gefur mér aftur tilefni til að hugsa um þessa einstaklinga sem eins og í hennar tilfelli var sagt upp á þingi. Ég geri hér ráð fyrir að störfin hafi ekki verið auglýst til umsóknar.
Svipað hlýtur að verða upp á teningnum hvað varðar aðra þingmenn sem hurfu af þingi. Meðal þeirra einstaklinga sem náðu ekki kjöri inn á alþingi í síðustu kosningum má nefna Sigurð Kára Kristjánsson, Kolbrúnu Halldórsdóttur og Guðjón Arnar Kristjánsson. Þó svo að þeim hafi verið sagt upp geri ég líka ráð fyrir að þau þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að verða á meðal þeirra þúsunda sem skráðir eru atvinnulausir og þiggja atvinnuleysisbætur. Ég verð að telja líklegra að þeirra bíði starf sem hvergi verði auglýst laust til umsóknar og tryggi þeim áframhaldandi laun í líkingu við biðlaun þingmanna.
Eftir að hafa misst vinnuna í kjölfar hrunsins í október síðastliðnum og upplifa atvinnuleysi þó einungis í skamman tíma geri ég ráð fyrir að eina vitið sé að bjóða sig fram til alþingis við næstu endurnýjun. Að því gefnu að ég nái kjöri og sitji eitt kjörtímabil þyrfti ég að minnsta kosti ekki að hafa áhyggjur af atvinnuöryggi mínu aftur. Ég hef fulla trú á því að mér yrði veitt formannsstaða á silfurfati án þess að gefa öðrum hæfum einstaklingum kost á að sækja um hana
Ásta Möller ráðin til HÍ | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Markmið stjórnmálamanna sérlega þeirra sem setið hafa lengi á þingi eru mér hulin ráðgáta. Eina skýringin á athöfnum þeirra liggur í því að þeir gangi kaupum og sölum.
Stefnu flokka má lesa með tvennum hætti. Það er sú stefna sem birtist í bæklingum þeirra sem oft er mjög óskýr og hlaðin fagurgölum sem eiga að höfða til kjósenda.
Síðan er það hin stefnan sem skiptir öllu máli en það er sú stefna sem birtist í athöfnum þeirra og ákvörðum þegar þeir hafa náð völdum. Djúp gjá er á milli þessara fyrirbæra, þ.e.a.s. ritaðrar stefnu og athöfnum stjórnmálamanna þegar að er gáð.
Athafnir stjórnmálamanna og valdhafa eru einatt í mikilli mótsögn við það sem auglýst er stefnuskrá þeirra. Það sem verra er að athafnir þeirra og ákvarðanir ganga yfirleitt í berhögg við velferð þjóðarinnar.
Margir stjórnmálamenn hafa auðgast vel á ferli sínum sem stjórnmálamenn en hegðun þeirra hefur orðið til þess að skapa orðatiltækið "að komast að kjötkötlunum". Ágætur maður sagði við mig í gær að pólitíkin sé eins og vél sem inn í fer sæmilega vandað fólk en síðan spýtist út úr henni rusl eða jafnvel hroði.
Mismunur á efnahagi stjórnmálamanna í upphafi stjórnmálaferils og lok stjórnmálaferlis er ágætur mælikvarði á heilindi þeirra sem stjórnmálamenn.
Marktæk einkenni um spillingu stjórnmálamanna er hvernig þeir gæta þess staðfastlega að auka ekki lýðræði á Íslandi. Málefni eins og einokun í verslun (t.d. olíufélög og matvælamarkaður), verðsamráð sem enginn einstaklingur þarf að svara fyrir jafnvel þó þau séu sönnuð, kvótakerfið, einkavæðing bankanna, einkavæðing 50 ríkisfyrirtækja í skjóli leyndar, leyndarhyggja, klíkuráðningar, mútuþægni og nú síðast skammarleg framganga samfylkingar og Steingríms og hans klíku í Icesave-málinu eru allt saman spor eftir óheiðarlega stjórnmálamenn.
Jóhanna Sigurðardóttir er í mestu vandræðum núna vegna þess að hún hefur í gegn um árin kynnt sig sem lýðræðissinna en vill nú alls ekki að lýðræðið nái fram að ganga með því að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu en það er bundið í stjórnarskrá að það skuli gera nú í framhaldi af því að forsetinn vísaði málefni ríkisábyrgðar í þann farveg.
Jón Snæbjörnsson, 18.1.2010 kl. 11:21
Sjálfspilling tekur við af samspillingu
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 18.1.2010 kl. 11:23
Staðan var auglýst, Ásta hefur sambærilega menntun miðað við kröfur.
Gestur Páll Reynisson (IP-tala skráð) 19.1.2010 kl. 09:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.